Kolbeinn Sigþórsson kann greinilega mjög vel við sig með Jón Daða Böðvarsson með sér í framlínu íslenska landsliðsins.
Þeir fengu að byrja saman síðasta leik á móti Moldóvu á Laugardalsvellinum á laugardaginn og skoruðu báðir. Jón Daði átti líka glæsilega stoðsendingu á Kolbein sem skilaði mikilvægu fyrsta marki leiksins.
Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson höfðu síðast verið saman í byrjunarliði íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016 eða fyrir rúmum þremur árum síðan.
Það er vissulega hægt að binda miklar væntingar til samvinnu þessara tveggja öflugu en ólíku framherja. Þeir vega hvorn annan upp og vinna vel saman.
Kolbeinn Sigþórsson er þannig búinn að skora í þremur síðustu leikjum sem hann hefur byrjað með Jón Daða Böðvarsson sér við hlið. Jón Daði hefur átt stoðsendinguna á hann í tveimur af þessum þremur mörkum.
Leikirnir eru sigurleikurinn á móti Englandi í sextán liða úrslitum EM 2016, tapleikurinn á móti Frakklandi í átta liða úrslitum EM 2016 og svo leikurinn á móti Moldóvu um síðustu helgi.
Annað hvort Kolbeinn eða Jón Daði hafa skorað í síðustu fjórum leikjum sem þeir hafa byrjað hlið við hlið í íslenska landsliðinu. Jón Daði skoraði á móti Austurríki í síðasta leik íslenska liðsins í riðlakeppni EM 2016.
Nú er bara að vona að þeir haldi áfram þessari frábæru samvinnu sinni í mikilvægum leik á móti Albaníu í Elbasan í kvöld.
Síðustu fjórir leikir Kolbeins og Jóns Daða saman í byrjunarliði íslenska landsliðsins:
7. september 2019: 3-0 sigur á Moldóvu
Jón Daði með mark og stoðsendingu - Kolbeinn með mark
3. júlí 2016: 2-5 tap fyrir Frakklandi
Kolbeinn með mark
27. júní 2016: 2-1 sigur á Englandi
Kolbeinn með mark - Jón Daði með stoðsendingu
22. júní 2016: 2-1 sigur á Austurríki
Jón Daði með mark
Samtals í þessum 4 leikjum
Kolbeinn Sigþórsson: 3 mörk
Jón Daði Böðvarsson: 2 mörk og 2 stoðsendingar
Kolbeinn búinn að skora í þremur síðustu leikjum með Jón Daða sér við hlið
Óskar Ófeigur Jónsson í Elbasan skrifar

Mest lesið



Svona verður enski boltinn á Stöð 2 Sport
Enski boltinn



„Þeir spila mjög fast og komast upp með það“
Körfubolti



