Miller steig nýlega fram undir nafni en áður hafði hún verið þekkt sem Emily Doe, fórnarlamb Brock Turners. Turner nauðgaði Miller á bak við ruslagám á skólalóð Stanford-háskóla í Kaliforníu í janúar 2015 þegar hún var meðvitundarlaus.
Sjá einnig: Fórnarlamb nauðgarans Brocks Turners stígur fram undir nafni í fyrsta skipti
Málið vakti heimsathygli fyrir þær sakir að hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi og afplánaði aðeins helming dómsins. Saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Turner en hámarksrefsing fyrir glæpinn er 14 ára fangelsi.
Aaron Persky, dómarinn í málinu, taldi hins vegar viðeigandi að dæma Turner í aðeins sex mánaða fangelsi, þar af þrjá skilorðsbundna. Persky bar því fyrir sig að þyngri dómur hefði alvarlegar afleiðingar fyrir Turner.

Lýsir átakanlegum réttarhöldum
Í stuttmyndinni fer Miller yfir eftirmála nauðgunarinnar. Hún lýsir því hvernig hún þorði varla út úr húsi og skömmin hafi elt hana hvert sem hún fór. Hún hafi ekki þorað að tala um árásina vegna ótta um að hún yrði að eilífu dæmd út frá því sem gerðist.„Í dómsal notaði dómari orð eins og: „vægt, ekki jafn alvarlegt“ til þess að lýsa glæpnum. Ég man eftir réttarhöldunum þegar verjandinn stóð fyrir framan kviðdóminn og sagði: „Chanel veit hvernig þú verður meðvitundarlaus. Þú drekkur mikið áfengi, og það var það sem hún gerði þetta kvöld – og mörg önnur kvöld til að vera hreinskilinn“,“ segir Miller í stuttmyndinni.
Hún sagðist hafa skrifað tólf blaðsíðna vitnisburð sem hún las upp í dómsal og horfðist í augu við árásarmann sinn. Hún segir dómarann ekki hafa hlustað.
Það var ekki fyrr en hún birti vitnisburðinn opinberlega að hún fór að finna fyrir alvöru stuðningi. Hún vilji því reyna að berjast gegn þeirri skömm sem fórnarlömb kynferðisbrota finna fyrir og biðlar til fólks að sýna stuðning.
„Láttu heyra í þér þegar þau reyna að þagga niður í þér. Stattu upp þegar þau reyna að halda aftur af þér. Enginn fær að skilgreina þig, þú færð að gera það.“
Hér að neðan má sjá stuttmyndina í fullri lengd.