Lamine Diaby, leikmaður Nice í frönsku úrvalsdeildinni, er grunaður um að hafa stolið úri liðsfélaga síns, Kaspers Dolberg.
Úri danska landsliðsmannsins var stolið úr búningsklefa Nice fyrr í þessum mánuði. Hann tilkynnti þjófnaðinn til lögreglu. Úrið er metið á 70.000 evrur.
Hinn 18 ára Diaby liggur undir grun en lögreglan á eftir að yfirheyra hann.
Ef satt reynist að Diaby hafi stolið úrinu eru dagar framherjans efnilega hjá Nice væntanlega taldir.
Dolberg, sem er 21 árs, kom til Nice frá Ajax í lok ágúst.
Diaby lék sex leiki fyrir Nice á síðasta tímabili en hann hefur verið hjá félaginu síðan hann var 13 ára. Hann á tæplega 20 leiki að baki fyrir yngri landslið Frakklands.
