Lýst er hvernig allir jöklar heims rýrna og yfirborð sjávar hækkar meira en áður var gert ráð fyrir í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem var kynnt í dag. Þar er gert ráð fyrir að áfram herði á rýrnun jökla, sérstaklega á norðlægum slóðum. Varað er við því að hlýnun og súrnun sjávar skapi álag á vistkefi hafsins.
Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu kemur fram að fylgjast þurfi vel með breytingunum og því hafi Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, ákveðið að auka við vöktun á hafi og jöklum í samstarfi við stofnanirnar tvær.
Með samstarfssamningnum fær Hafrannsóknastofnun 35 milljónir króna í ár og síðan þrjátíu milljónir árlega til og með 2023, alls 155 milljónir króna, til þess að fylgjast með súrnun sjávar. Fénu verði varið til kaupa á tækjabúnaði til að efla vöktun sem þegar á sér stað á sýrustigi í hafi en einnig til að hefja vöktun á áhrifum súrnunar á botndýr. Niðurstöðunum verði skilað til alþjóðlegra stofnana og samvinnuverkefna sem Ísland tekur þátt í og þær einnig nýttar í vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.
Tæpar hundrað milljónir í að fylgjast með jöklum
Veðurstofan fær fimmtán milljónir króna til að vakta hörfandi jökla í ár og svo tuttugu og eina milljón árlega til og með 2023, samtals tæpar hundrað milljónir króna á tímabilinu. Fjármunirnir verða nýttir til þátttöku í alþjóðlegum vöktunarverkefnum og til að setja upp sérstaka jöklavefsjá sem birtir uppfærðar upplýsingar um jökla og breytingar á þeim.Þá stendur til að bæta reikninga um afkomu jökla á Íslandi og á það að gefa kost á birtingu daglegra upplýsinga um ákomu, leysingu og afkomu þeirra. Vinna á gagnasafn um útbreiðslu íslenskra jökla.
Fyrir hafði verið ákveðið að efla vöktun á sjávarstöðubreytingum og skriðuhættu, meðal annars vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Vöktunin á að styrkja áhættumat, almannavarnir, nýtingu auðlinda og vísindalega þekkingu.
Í skýrslu IPCC kemur fram að hop jökla og bráðnun sífrera geri fjallahlíðar á háfjallasvæðum óstöðugri. Þá muni jaðarlón framan við jökla stækka og fjölga. Þannig megi búast við að skriðuföll og flóð eigi sér stað þar sem slíkt hefur ekki þekkst áður.
Almannavarnir á Íslandi vöruðu þannig við ferðum á Svínafellsjökul vegna hættu á skriðuföllum í fyrra. Vísindamenn hafa fylgst með sprungum sem hafa myndast í Svínafellsheiði undanfarin ár með tilliti til hættu á meiriháttar berghlaupi þar.