Innlent

Í gæslu­varð­hald og ein­angrun grunuð um kókaín­smygl

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Konan var handtekin við komuna til Keflavíkur.
Konan var handtekin við komuna til Keflavíkur. Vísir/vilhelm
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að kona er grunuð er um að hafa flutt hingað til lands um 400 grömm af kókaíni og 0,49 grömm af amfetamíni sæti gæsluvarðhaldi til 24. september næstkomandi. Skal hún sæta einangrun á meðan hún er í haldi.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum sem rakin er í úrskurði héraðsdóms kemur fram að þann 16. september hafi borist tilkynning frá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli um að grunur léki á að farþegi sem hefði verið að koma til landsins væri með fíkniefni meðferðis.

Ekki kom til líkamsleitar á konunni þar sem hún viðurkenndi við tollgæslu að vera með fíkniefni á sér. Fjarlægði hún 50 pakkningar af ætluðum fíkniefnum úr nærfötum sínum auk eins smellupoka sem innihélt ætluð fíkniefni. Sagði konan að hún teldi sjálf að um væri að ræða kókaín.

Í greinargerð lögreglu segir að rannsókn málsins sé á frumstigi. Rannsaka þurfi frekar ferðir konunnar hingað til lands og tengsl hennar við hugsanlega vitorðsmenn hér á landi og/eða erlendis auk annarra atriða. Þá þykir magn fíkniefnanna eindregið benda til þess að ætlunin hafi verið að selja þau og dreifa hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×