Málið svipar verulega til þess þegar Trump þrýsti á Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, að rannsaka Joe Biden, pólitískan andstæðing sinn. Það símtal og uppljóstrarakvörtun vegna þess leiddi til þess að Demókratar ákváðu að hefja formlegt ákæruferli á hendur Trump.
Sjá einnig: Hvíta húsið leyndi fleiri viðkvæmum símtölum Trump við Pútín og Sáda
Samkvæmt NYTimes hringdi Trump sérstaklega í Morrison til þess að ræða við hann um Rússarannsókn Robert Mueller, og það eftir að William Barr, dómsmálaráðherra, bað hann um það.
Washington Post segir Barr hafa verið á ferð og flugi um heiminn að undanförnu. Hann hafi beðið fjölda háttsetta starfsmenn erlendra leyniþjónusta um að hjálpa Dómsmálaráðuneytinu við rannsókn þeirra á Rússarannsókninni.

Papadopoulos sagðist hafa heyrt það frá prófessornum Joseph Mifsud, sem er nú horfinn.
Bandamenn Trump og þar er meðtalinn Rudy Giuliani, einkalögmaður Trump, hafa haldið því fram að leyniþjónustur vestrænna ríkja hafi fengið Mifsud til að leiða Papadopoulos í gildru.
Hóf rannsókn á rannsókn
Barr, sem hefur verið sakaður um að haga sér eins og lögmaður Trump en ekki dómsmálaráðherra, hóf fyrr á þessu ári rannsókn á Rússarannsókninni, þátt annarra ríkja að henni og því hvort bandarískir löggæsluaðilar eða starfsmenn leyniþjónusta Bandaríkjanna sem komu að henni hafi brotið af sér við upphaf rannsóknarinnar á afskiptum Rússa og hvort að framboð Rússa hafi starfað með þeim.Sjá einnig: Enn ein rannsóknin á rannsókninni sett á laggirnar
Mueller og rannsakendur hans komust að þeirri niðurstöðu að ekkert glæpsamlegt athæfi hafi átt sér stað á milli framboðsins og Rússa en hinsvegar hafi verið ljóst að framboð Trump hafi tekið afskiptum Rússa fagnandi.
Trump hefur gefið í skyn að hann sjái rannsókn Barr sem tækifæri til að ná sér niður á óvinum sínum. Í mái sagðist hann vilja að Barr tæki Bretland sérstaklega fyrir í rannsókn sinni og Ástralíu og Úkraínu sömuleiðis.
Barr skipaði John H. Durham sem yfirmann rannsóknarrannsóknarinnar en heimildarmenn NYT segja Barr taka virkan þátt í henni. Það hefur valdið áhyggjum um að Trump hafi skipað Barr að nýta löggæslustofnanir Bandaríkjanna í pólitískum tilgangi.
Þátttaka Barr þykir undarleg
Til marks um það segir Washington Post að Barr hafi að undanförnu rætt við embættismenn og starfsmenn erlendra leyniþjónusta um aðstoð við rannsóknina. Hann hafi beðið fjölda háttsetta starfsmenn erlendra leyniþjónusta um að hjálpa Dómsmálaráðuneytinu við rannsókn þeirra á Rússarannsókninni. Meðal annars hefur hann farið til Bretlands og Ítalíu og beðið um aðstoð. Sum sé, að hann hafi beðið erlenda aðila um að rannsaka FBI og leyniþjónustur Bandaríkjanna.Demókratar munu líklega segja þetta til marks um að Trump sé að nota vald sitt til að herja á andstæðinga sína. Núverandi og fyrrverandi starfsmenn Dómsmálaráðuneytisins sem blaðamenn ræddu við segjast pirraðir yfir því að ráðherrann sé að taka svo virkan þátt í rannsókn sem byggir á samsæriskenningu og innihaldslausum ásökunum.
Trump hefur þó gert það að ákveðnu herópi sínu og stuðningsmanna sinna að rannsaka rannsakendurna, ef svo má að orði komast. Hann vill grafa undan þeirri niðurstöðu leyniþjónusta Bandaríkjanna að Rússar hafi haft afskipti af forsetakosningunum, með því markmiði að hjálpa Trump að verða forseti.
Það að Barr taki þennan þátt í rannsókninni sýni að yfirlýsingar um fagmennsku og ópólitíska rannsókn hafi verið marklausar, segir David Laufman, fyrrverandi starfsmaður ráðuneytisins sem kom að Rússarannsókninni í upphafi hennar.