Fótbolti

Alfreð tryggði stig gegn meisturunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alfreð skoraði jöfnunarmarkið af stuttu færi
Alfreð skoraði jöfnunarmarkið af stuttu færi vísir/getty
Alfreð Finnbogason kom inn af bekknum og tryggði Augsburg jafntefli gegn Þýskalandsmeisturum Bayern München í dag.

Augsburg fékk draumabyrjun þegar Bayern mætti í heimsókn, Marco Richter kom heimamönnum yfir strax á fyrstu mínútu.

Augsburg var þó ekki lengi í forystunni því Robert Lewandowski jafnaði metin á 14. mínútu og þar við sat fram að hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks skoraði Serge Gnabry annað mark Bayern og kom meisturunum yfir.

Það leit allt út fyrir að Bayern færi með þrjú stigin aftur heim þar til í uppbótartíma. Þá komst Augsburg í hraða sókn, Sergio Cordova átti fyrirgjöf inn í teiginn þar sem íslenski landsliðsmaðurinn var mættur og skoraði af stuttu færi. Lokatölur 2-2 jafntefli.

Alfreð hafði komið inn af varamannabekknum á 69. mínútu.

Stigið var mikilvægt fyrir Augsburg í botnbaráttunni en stuðningsmenn Bayern blóta töpuðum stigum í toppbaráttunni. Borussia Monchengladback getur nú komist fjórum stigum á undan meisturunum á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×