Erlent

Öngþveiti á þinginu í Hong Kong

Atli Ísleifsson skrifar
Að endingu var þingfundi slitið án þess að Carrie Lam gæti klárað ræðu sína.
Að endingu var þingfundi slitið án þess að Carrie Lam gæti klárað ræðu sína. Getty
Öngþveiti ríkti á þinginu í Hong Kong í nótt þegar Carrie Lam, leiðtogi sjálfstjórnarhéraðsins, ætlaði að flytja stefnuræðu sína fyrir upphaf þingfundar en þingstörf áttu að hefjast að nýju eftir langt hlé.

Hróp og köll frá stjórnarandstæðingum komu í veg fyrir að Lam gæti hafið mál sitt og þá vörpuðu þeir einnig slagorðum úr myndvarpa á vegginn að baki henni. Að endingu var þingfundi slitið án þess að Lam gæti klárað ræðu sína.

Ræðan var send út á upptöku þess í stað, að því er breska ríkisútvarpið greinir frá. Á meðal þess sem til stóð að gera á þinginu var að draga formlega til baka hið umdeilda lagafrumvarp um framsal fanga yfir til meginlands Kína, en það var kornið sem fyllti mælinn hjá stjórnarandstöðunni og varð til þess að víðtæk mótmæli hófust sem staðið hafa um mánaðaskeið.

Frumvarpinu var raunar frestað í sumar, en á þinginu átti að draga það til baka formlega, en þingið hefur ekki komið saman síðan mótmælendur réðust inn í þingsalinn í júlí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×