Hæstiréttur Spánar dæmdi í gær Junqueras í þrettán ára fangelsi fyrir uppreisnaráróður og misnotkun á opinberu fé í tengslum við atkvæðagreiðsluna 2017 og ákvörðun katalónska þingsins að lýsa yfir sjálfstæði. Átta leiðtogar katalónskra sjálfstæðissinna hlutu sömuleiðis dóma.
„Ég er sannfærður um það að þessa deilu verði að leysa í kjörkössum,“ segir Junqueras í samtali við Reuters. „Fyrr eða síðar er þjóðaratkvæðagreiðsla óumflýjanleg. Hvernig eigum við annars að geta gefið borgurunum rödd?“
Vísað til Strassborgar
Í viðtalinu segist hann ekki sjá eftir þátttöku sinni í að skipuleggja atkvæðagreiðsluna 1. október 2017, sem spænskir dómstólar dæmdu síðar ógilda.Hann segir að þessir þungu dómar sem féllu í gær komi bara til með að efla aðskilnaðarhreyfinguna. „Við munum halda áfram og aldrei gefast upp.“
Junqueras segir ennfremur að hann og fleiri þeirra sem hlutu dóma komi til með að vísa málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu.