Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var spekingur Seinni bylgjunnar sem var á dagskrá í gærkvöldi þar sem hann fór yfir leikinn.
„Stelpurnar spiluðu frábærlega og frammistaðan var heilt yfir mjög góð. Við byrjuðum af miklu krafti og það vantar tvo til þrjá sterka leikmenn í Hauka-liðið en þær gáfust full fljótt upp og gerðu okkur þetta auðvelt fyrir,“ sagði Ágúst.
Sara Odden, sænsk skytta sem Haukarnir fengu í sumar, hefur ekki náð neinum hæðum í þeim þremur leikjum sem búnir eru.
„Ég talaði við Árna Stefán er hún var að koma til landsins og Haukarnir hafa miklar væntingar til hennar. Hún var að vísu ekki í mikilli leikæfingu er hún kom til Hauka,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon og hélt áfram:
„Það er ótrúlega auðvelt að vera ferskur í byrjun en svo getur dregið af þér en ég held að hún verði Haukunum mjög mikilvæg þegar líður á mótið.“
Fram vann öruggan sigur í Mosfellsbæ og það kom Halldóri Jóhanni ekki á óvart.
„Fram er sterkasta liðið í dag og það er ekkert óvenjulegt að þær vinna þarna með tíu til fimmtán mörkum. Það er mjög erfitt að spila á móti þeim.“
Alla umræðuna um 3. umferð Olís-deild kvenna má sjá hér að neðan.