Milat var handtekinn í maí árið 1994 en hann er sagður hafa rænt og myrt í það minnsta sjö ferðalanga árin 1989 til 1992. Ferðalangarnir sem urðu síðar fórnarlömb Milat voru frá Þýskalandi, Bretlandi og Ástralíu og áttu það öll sameiginlegt að hafa verið að ferðast um Ástralíu þegar Milat bauð þeim far á vegum úti milli Sydney og Melbourne.
Fórnarlömb hans fundust öll í grunnri gröf í Belanglo-skóginum í Nýju Suður-Wales. Öll sneru þau með andlitið niður og hendur fyrir aftan bak. Á líkum þeirra fundust bæði stungusár og skotsár. Hann var dæmdur í sjöfalt lífstíðarfangelsi, einn lífstíðardóm fyrir hvert fórnarlamb, í júlímánuði árið 1996 eftir átján vikna réttarhöld.

Mál Milat komst aftur í sviðsljósið árið 2011 þegar skyldmenni hans játaði að hafa myrt félaga sinn með exi. Líkt og frændi sinn framdi hann morðið í Belanglo-skóginum og faldi líkið undir greinum, en hann hafði gortað sig af ættartengslum sínum við Milat eftir verknaðinn.
Mörgu er ósvarað í máli Milat og er talið að fórnarlömb hans gætu verið fleiri en þau sem hann var sakfelldur fyrir. Ljóst er að glæpaferill Milat hófst löngu fyrir morðin við upphaf tíunda áratugarins, en hann var sakaður um að hafa nauðgað tveimur ferðalöngum árið 1971. Eftir heilsubrest í maí á þessu ári höfðu yfirvöld vonast eftir því að hann myndi játa á sig fleiri morð en þeim varð ekki að ósk sinni fyrir andlát hans.