Innlent

Appelsínugul stormviðvörun á Suðausturlandi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Gera má ráð fyrir áframhaldandi sand- eða jafnvel grjótfoki á Suðausturlandi. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausamunum.
Gera má ráð fyrir áframhaldandi sand- eða jafnvel grjótfoki á Suðausturlandi. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausamunum. Veðurstofa Íslands
Veðurstofa Íslands hefur uppfært viðvörun sína fyrir Suðausturland vegna norðan hvassviðrisins sem þar geysar og færist hún úr gulri stormviðvörun í appelsínugula. Viðvörunin verður í gildi til hádegis á morgun.

Gera má ráð fyrir áframhaldandi sand- eða jafnvel grjótfoki í landshlutanum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausamunum.

Bálhvasst veður var og er í Suðursveit í dag en vindurinn hreif með sér bæði sand og steina sem fuku í bíla og brutu rúður.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi hríðarveðri á norðanverðu landinu í kvöld og á morgun og þá verður bálhvasst undir Vatnajökli, í Mýrdal og á sunnanverðu Snæfellsnesi í kvöld.

Veðurviðvaranir, allt frá Ströndum á Vestfjörðum meðfram öllu norðanverðu landinu, gilda til miðnættis. Gulri viðvörun á Austfjörðum hefur verið aflétt.

Enn er ófært í Víkurskarði en á Norðurlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á flestum vegum sem og éljagangur eða skafrenningur. Biðlað er til fólks að fara að öllu með gát og fylgjast vel með færð.

Á Ströndum og um Norðurland vestra er norðan 13-20 metrar á sekúndu. Gert er ráð fyrir nánast samfelldum og þéttum éljagangi í kvöld. Skafrenningur, takmarkað skyggni og líkur á versnandi akstursskilyrðum.

Hvöss norðanátt og snjókoma er á Norðurlandi eystra, 13-18 metrar á sekúndu og þéttur éljagangur síðdegis. Þar verður líka skafrenningur, takmarkað skyggni og líkur á versnandi akstursskilyrðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×