Útlit er fyrir að fastir vextir íbúðalána muni hækka þrátt fyrir vaxtalækkunina sem Seðlabanki Íslands greindi frá í gær, að sögn Agnars Tómasar Möller, sjóðsstjóra hjá Júpíter.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að lækka vexti bankans um 0,25 prósent og verða meginvextirnir því þrjú prósent. Vextir bankans hafa lækkað um 1,5 prósent frá því í maí á þessu ári. Skýrt kom fram í tali seðlabankastjóra og aðalhagfræðings að ekki væri útlit fyrir frekari vaxtalækkanir, gangi spár bankans eftir. Þótt vextir Seðlabankans hafa lækkað líkt og búist var við, fóru skilaboðin öfugt ofan í skuldabréfamarkaðinn.
„Viðbrögð markaðarins hafa verið á þá leið að raunvextir hafa hækkað nokkuð skarpt, ekki síst á sértryggðum skuldabréfum og öðrum vel tryggum skuldabréfum, og því má reikna með að fastir vextir íbúðalána geti tekið að hækka á ný á næstunni sem og vextir fyrirtækja sem hyggjast fjármagna sig á skuldabréfamarkaði,“ segir Agnar í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að á sama tíma og Seðlabankinn sé að lækka vexti sé hann einnig að senda skýr skilaboð um að raunvaxtaaðhald muni ekki lækka horft fram á veginn.
Aðhaldsstig Seðlabankans hverju sinni er mælt með svokölluðum virkum vöxtum Seðlabankans að frádreginni verðbólgu, það er svokallað raunvaxtastig peningastefnunnar. Agnar segir að aðstæður í hagkerfinu hér heima og erlendis stýri að mestu hvert hæfilegt aðhaldsstig sé hverju sinni ásamt verðbólguvæntingum. Hann bendir á að bankinn spái 2,2 prósenta verðbólgu eftir eitt ár sem er aðeins hærra en verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til sama tíma.
„Haldist vextir bankans óbreyttir og verðbólguspá bankans og markaðarins rætist, mun því raunvaxtaaðhald bankans vera um 0,8 prósent, og reyndar nokkuð hærra því virkir vextir eru í dag hærri en þriggja prósenta viðmið Seðlabankans. Síðastliðin tvö ár hefur raunvaxtastig bankans verið um 1,05 prósent að meðaltali, og því er ekki hægt að segja að aðhald bankans sé að minnka mikið. Auk þess eru vaxtalækkanir bankans einungis að hluta að miðlast í lánskjör heimila og fyrirtækja,“ segir Agnar.
„Ég held að bankinn sé ekki að lesa rétt í stöðuna, sérstaklega þá örvun sem núverandi vaxtastig er að gefa hagkerfinu. Það er ofsögum sagt að vaxtalækkanir bankans séu að styðja mikið við hagkerfið enda munu raunvextir bankans að óbreyttu lítið lækka.“
Útlit fyrir að fastir vextir íbúðalána hækki
Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Mest lesið

Um 44 prósent hlynnt inngöngu í Evrópusambandið
Viðskipti innlent

Leigja út fjórar vélar og taka eina á leigu
Viðskipti innlent

Fyrsta íslenska grænkera ostagerðin í hættu
Viðskipti innlent



Gefur reikniformúlu tollgjaldanna falleinkunn
Viðskipti erlent


Bjartara yfir við opnun markaða
Viðskipti erlent

Trump hótar Kínverjum 50 prósenta viðbótartolli
Viðskipti erlent

Leggja til 25 prósent tolla á valdar bandarískar vörur
Viðskipti erlent