Körfubolti

Óþekktur nýliði kom Golden State til bjargar á afmælinu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Paschall er leikmaður Golden State Warriors og var frábær í nótt.
Eric Paschall er leikmaður Golden State Warriors og var frábær í nótt. Getty/Ezra Shaw
Ný stjarna er mögulega að fæðast hjá Golden State Warriors eftir ótrúlega frammistöðu nýliða þegar liðið þurftu á öllu hans að halda í miklum meiðslavandræðum sínum.  

Golden State Warriors vann óvæntan sigur á Portland Trail Blazers í NBA-deildinni í nótt. Þetta hljómar kannski skrýtið í augum margra en þeir ættu þá að sjá meiðslalista Warriors liðsins í leiknum.

Golden State liðið missti Kevin Durant til Brooklyn í sumar og Klay Thompson í heilsársmeiðsli. Í ofanálag þá eru þeir Stephen Curry, Draymond Green og D'Angelo Russell allir meiddir í dag. Golden State var síðan aðeins búið að vinna einn af fyrstu sex leikjum sínum.  '





Warriors liðinu tókst samt engu að síður að vinna 127-118 á Portland í nótt og því má þakka magnaðri frammistöðu afmælisbarnsins í liðinu.

Nýliðinn Eric Paschall hélt upp á 23 ára afmælisdaginn sinn í gær en Golden State Warriors valdi hann númer 41 í nýliðavalinu síðasta sumar.

Eric Paschall var magnaður með 34 stig og 13 fráköst í leiknum. Hann hefur þar með skorað 79 stig í fyrstu þremur leikjum sínum í byrjunarliði. Sá eini sem hefur náð því var Jeremy Lin með New York Knicks í febrúar 2012.







Það er ekki aðeins að Eric Paschall er nýliði heldur líka að hversu seint hann var valinn í nýliðavalinu.

Eric Paschall varð nefnilega fyrsti nýliðinn frá árinu 1994 sem nær að skora 34 stig og taka 10 fráköst í NBA-deildinni eftir að hafa verið valinn í annarri umferð en ekki í þeirri fyrstu.

Eric Paschall var einnig í byrjunarliðinu á móti Phoenix Suns (20 stig), Charlotte Hornets (25 stig) og Portland (34 stig).







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×