Ástandið í Hong Kong er á suðupunkti. Athygli vakti þegar lögreglumaður skaut mótmælanda í magann á mánudag og þegar námsmaður á þrítugsaldri féll til bana í aðgerð lögreglunnar í síðustu viku. Forseti Kína, Xi Jinping, var í nótt harðorður í garð mótmælenda og sagði þá stefna því í hættu að Kína geti verið með Tvö kerfi í einu ríki, eins og tíðkast hefur undanfarna áratugi.
Með því er átt að á svæðum á borð við Hong Kong og Macao fái íbúar ákveðna sjálfstjórn og frelsi til að haga sínum málum sjálfir án of mikilla afskipta frá stjórnvöldum í Peking.
Sjötugi maðurinn sem lést í nótt er sagður hafa verið að taka myndir af mótmælunum þegar hann fékk múrsteininn í hausinn. Hann er talinn hafa komið þar við í hádegishléi sínu, en hann starfaði sem verktaki fyrir heilbrigðiseftirlit borgarinnar.
Mótmælin hafa einnig teygt úr sér til annara landa. Í London veittust mótmælendur að dómsmálaráðherra Hong Kong, Theresu Cheng, með þeim afleiðingum að hún féll í jörðina og slasaðist alvarlega, að því er yfirvöld í Hong Kong segja.
Hér að neðan má sjá myndband sem breska ríkisútvarpið tók saman um mótmælin á þriðjudag. Þá studdust mótmælendur við boga og örvar.