Hannes Þór Halldórsson, aðalmarkvörður íslenska landsliðsins, hefur spilað marga landsleiki við Tyrki en þekkir ekki enn þá þá tilfinningu að tapa fyrir Tyrkjum í landsleik.
Landsleikurinn við Tyrki á Laugardalsvellinum í júní síðastliðnum var fjórði landsleikur Hannesar á móti Tyrklandi og íslenska landsliðið hefur unnið þá alla. Markatalan er 10-1 og Hannes hefur haldið markinu þrisvar sinnum hreinu.
Hannes hefur spilað alla landsleiki við Tyrki á undanförnum árum nema einn. Hann var ekki með í útileiknum á móti Tyrklandi í Konya í undankeppni EM 2016.
Íslenska landsliðið hafði tryggt sig inn á EM í Frakklandi og þar með inn á sitt fyrsta stórmót í leiknum á undan og leikurinn úti í Tyrklandi skipti engu máli, fyrir Ísland. Hann skipti hins vegar miklu máli fyrir Tyrki.
Það var þó ekki ástæðan fyrir því að Hannes stóð ekki í markinu heldur sú að hann hafði meiðst á öxl í leiknum á undan og gat ekki spilað.
Ögmundur Kristinsson stóð í markinu og var nálægt því að halda marki sínu hreinu. Selcuk Inan skoraði aftur á móti sigurmarkið beint úr aukaspyrnu á 89. mínútu og tryggði Tyrkjum ekki aðeins 1-0 sigur á Íslandi heldur einnig sæti í úrslitakeppni EM 2016.
