Björgunarfólk bæði frá Albaníu og nágrannalöndunum hefur unnið af kappi í dag og í gær við að ná til þeirra sem urðu innlyksa þegar byggingar hrundu í fyrrinótt. Jarðskjálftinn sem reið yfir Albaníu var 6,4 stig. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, margir yfir fimm stigum.
Tekist hefur að bjarga 42 en flest hinna látnu fórust þegar íbúðablokkir og hótel hrundu á meðan íbúarnir sváfu. Ekki liggur enn fyrir hversu margra er saknað enda ekki vitað hversu mörg festust í rústum.
Neyðarbúðir hafa verið reistar á þeim svæðum sem komu verst út úr skjálftanum. Til dæmis í borginni Durres. Þar vörðu margir borgarbúar nóttinni á knattspyrnuleikvangi og sváfu í tjöldum og jafnvel bílum.
Jarðskjálftar eru nokkuð algengir á Balkanskaga en skjálftinn er sá öflugasti sem riðið hefur yfir Albaníu í áratugaraðir. Fjörutíu ár eru frá því 136 fórust í 6,9 stiga skjálfta í landinu.