Golden State Warriors tapaði með 48 stiga mun fyrir Dallas Mavericks, 142-94, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Þetta er stærsta tap Golden State síðan 1973, eða í 46 ár.
Golden State hefur verið með besta liðið í NBA undanfarin fimm ár en nú er öldin önnur. Allir bestu leikmenn Golden State eru meiddir og liðið er með versta árangurinn í NBA (þrjá sigra og 13 töp).
Luka Doncic, Slóveninn magnaði í liði Dallas, var með þrefalda tvennu annan leikinn í röð. Hann skoraði 35 stig, tók tíu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.
Í 1. leikhluta skoraði Doncic fleiri stig (22) en allt Golden State-liðið (16). Hann skoraði 33 af 35 stigum sínum í fyrri hálfleik. Doncic spilaði aðeins 25 mínútur í leiknum en Rick Carlisle, þjálfari Dallas, gat leyft öllum að spila þar sem úrslitin voru snemma ráðin. Dallas jafnaði félagsmet með því að skora 22 þriggja stiga körfur í leiknum.
Golden State var aðeins með átta leikmenn á skýrslu í leiknum í nótt, sem er lágmark í NBA, og enginn þeirra lék með liðinu á síðasta tímabili.
„Sturtaðu þessu niður í klósettið. Við verðum bara að halda áfram. Við getum ekkert tekið út úr leik sem þessum,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State, eftir leikinn í nótt.
Tapið var það stærsta hjá Golden State síðan liðið tapaði með 56 stigum, 70-126, fyrir Los Angeles Lakers í úrslitum Vesturdeildarinnar 21. apríl 1973.
