Íslenska liðið fer í umspil um sæti á EM í mars á næsta ári. Í undanúrslitum umspilsins mætir Ísland annað hvort Ungverjalandi eða Rúmeníu á Laugardalsvelli 26. mars. Fimm dögum síðar verður úrslitaleikur um sæti á EM. Dregið verður í umspilið á föstudaginn. Sýnt verður beint frá drættinum klukkan 11:00 á Stöð 2 Sport og hér á Vísi.
Vinni Ísland leikina tvo í umspilinu tryggir það sér sæti á öðru Evrópumótinu í röð. Þar verður Ísland annað hvort í C- eða F-riðli.

Ísland getur einnig lent í F-riðli með Þýskalandi. Allir leikir þýska liðsins fara fram á heimavelli Bayern München, Allianz Arena. Hinir þrír leikirnir í riðlinum verða á nýjum og glæsilegum þjóðarleikvangi Ungverjalands í Búdapest.
Dregið verður í riðla á EM 30. nóvember næstkomandi.