Lögreglan á Möltu hefur handtekið þekktan viðskiptajöfur í landinu að nafni Yorgen Fenech. Hann var handtekinn í morgun klukkan hálfsex að staðartíma þar sem hann dvaldi um borð í snekkju sinni skammt í Portomaso á Möltu.
Samkvæmt umfjöllun erlendra fjölmiðla er það ekki staðfest fyrir hvað Fenech er handtekinn en handtakan kemur daginn eftir að forsætisráðherra Möltu, Joseph Muscat, sagði að hann myndi biðja mann opinberlega afsökunar sem lá undir grun um að vera einhvers konar milligöngumaður í morðinu á maltnesku blaðakonunni Daphne Caruana Galizia.
Maðurinn er grunaður um peningaþvætti en hann hefur sagt að hann viti hver skipulagði morðið að því er segir í umfjöllun Times of Malta.
Galizia var myrt í bílasprengju árið 2017. Hún var þekkt fyrir umfjöllun sína um spillingu í stjórnmálum á Möltu og skrifaði hún meðal annars um Panama-skjölin og aflandsfélag tengt forsætisráðherranum Muscat.
Yfirvöld á Möltu hafa sætt gagnrýni á alþjóðavettvangi fyrir rannsóknina á morðinu en enn hefur enginn verið dæmdur í fangelsi fyrir glæpinn.
