Tugir þúsunda hafa safnast saman til að taka þátt í kröfugöngu á götum Hong Kong. Þetta er í fyrsta sinn síðan í ágúst sem að yfirvöld í sjálfstjórnarhéraðinu veita Borgaralegu mannréttindafylkingunni, einum stærstu baráttusamtökunum fyrir lýðræðisumbótum í Hong Kong, leyfi til að mótmæla.
BBC greinir frá því að ellefu hafi verið handteknir í húsleit í aðdraganda mótmælagöngunnar í morgun og að skammbyssa hafi verið gerð upptæk.
Mótmælaaldan blossaði upp í júní síðastliðinn vegna lagafrumvarps sem sneri að framsali fólks til meginlands Kína. Þau þróuðust hins vegar síðar yfir í almenn mótmæli gegn ríkjandi stjórnvöldum. Framsalsfrumvarpið hefur nú þegar verið dregið til baka.
Í yfirlýsingum frá stjórnvöldum hafa mótmælendur verið hvattir til að halda ró sinni og að stjórnvöld hlusti á skilaboðin frá mótmælendum og hafi nú þegar dregið af þeim lærdóm.

