Alls taka um tvö þúsund og tvö hundruð slökkviliðsmenn þátt í slökkvistarfi þar sem gróðureldar loga í Ástralíu. Yfirvöld hafa sagt að eldur logi á níutíu og fimm stöðum og séu þeir svo miklir ekki hafi tekist að hefta útbreiðslu þeirra.
Eldarnir geisa víða. Til dæmi í New South Wales, Queensland, Viktoríu, Suður og Vestur-Ástralíu og Tasmaníu.

Slökkviliðsmenn hafa verið í hættu við störf sín
„Maður er að slökkva stakan eld og á næsta augnabliki er 30 metra bál fyrir aftan mann. Maður hefur bara ekki undan,“ segir Matthew Hutton, slökkviliðsmaður.Umfang eldanna og sú staðreynd að þeir eru óvenjulega snemma á ferð að þessu sinni hafa vakið umræðu í Ástralíu og víðar um nauðsyn þess að bregðast við loftslagsbreytingum af auknum þunga.
„Munurinn núna, þegar við erum að koma inn í sumarmánuðina, er að áður fyrr voru þeir að mestu bundnir við norðurhluta New South Wales, en það sem við sjáum í þessari viku er að mannafli okkar þarf að vera meðfram allri strandlengjunni. Eldarnir hafa líka komist mjög nálægt meiri háttar þéttbýlissvæðum hvort sem það er við suðurströndina, miðströndina eða jafnvel vesturhluta Sydney,“ segir Gladys Berjiklian, ríkisstjóri í New South Wales.
Ástandið er einna verst í um klukkustundarfjarlægð frá Sydney, stærstu borg Ástralíu. Því hefur verið beint til íbúa nærri hamfarasvæðunum að flýja heimili sín þegar í stað en alls hafa sex manns látist og um sjö hundruð heimili eyðilagst frá því í október.