Hjónin Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir og Erwin van der Werve hafa, ásamt börnum sínum tveimur, sjálf búið í Mongólíutjaldi í Eyjafjarðarsveit undanfarin ár.
„Það er bara yndislegt. Mér finnst það og mér líður enn mjög vel, sex árum seinna,“ segir Þóra Sólveig í samtali við Vísi þegar fréttamaður leit í heimsókn fyrir helgi.
Það blundaði alltaf í þeim að leyfa öðrum að njóta þess að dvelja í svona tjaldi.
„Fólk sækir í þetta og finnst þetta í spennandi. Það er bara að vera í náttúrunni, í svona mikilli nærveru við náttúruna. Ná að slaka á. Þetta er eiginlega eins og móðurkviður, móðurlíf að vera þarna inni, umvafinn og öruggur í skjóli en fá að heyra samt í veðrum og vindum.“
„Og fuglunum á sumrin,“ skýtur Erwin inn í.
„Heyra þegar hrafnin flýgur yfir, heyra vængjaþytinn. Það er mjög notalegt,“ segir Þóra Sólveig.

„Við vorum ekki viss um hvernig þetta myndi pluma sig hérna upp á fjalli en það hefur staðið allt af sér. Formið er svo snjallt,“ segir Þóra Sólveig.
Nú erum við á norðurhjara veraldar, það er snjór og frekar kalt úti akkúrat núna. Gengur þetta alveg á veturna?
„Já, mjög vel. Það er svolítið hátíðlegt að gista svona og vera með viðarofn, kveikja eld, horfa í eldinn og slaka á og finna ylinn færast um rýmið.“