Það verður norðlæg átt á landinu í dag, víða 8 til 15 metrar á sekúndu um landið norðanvert, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Á Austurlandi verður hvöss vestanátt fram yfir hádegi og gæti vindur farið upp í 20 metra á sekúndu í strengjum við fjöll. Vindur verður heldur hægari suðvestan til á landinu.
Með norðanáttinni fylgir éljagangur um landið norðanvert og er veður kólnandi. Á Suðurlandi má búast við því að það verði léttskýjað en ansi kalt með frosti allt niður í 12 stig.
Á morgun, föstudag, er svo útlit fyrir fallegt vetrarveður víðast hvar, léttskýjað og frost. Næsta lægð er síðan væntanleg að suðurströndinni seinni partinn á laugardaginn með örlítið hlýrra lofti og snjókomu eða slyddu.
Veðurhorfur á landinu:
Norðlæg átt 8-15 m/s og él, en vestan 15-20 austan til fram yfir hádegi. Lengst af hæg norðlæg átt og léttskýjað sunnan- og vestantil. Frost 0 til 12 stig, kaldast í uppsveitum sunnanlands.
Norðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s, á morgun, en norðvestan 10-15 austast. Éljagangur norðaustan- og austanlands en annars bjartviðri. Frost 1 til 9 stig, kaldast norðan til.
Á föstudag:
Norðan 3-10 m/s, en 10-15 með norðausturströndinni. Dálítil snjókoma eða él norðan- og austanlands, annars léttskýjað. Frost 2 til 10 stig, kaldast inn til landsins.
Á laugardag:
Vaxandi austlæg átt, 10-15 m/s síðdegis en hægari norðaustanlands. Að mestu skýjað og þurrt, en dálítil él með norðurströndinni og snjókoma sunnan til um kvöldið. Minnkandi frost.
Á sunnudag:
Norðaustanátt og snjókoma eða slydda með köflum, en úrkomulítið vestanlands. Hiti kringum frostmark.
Á mánudag:
Suðaustanátt, rigning og hiti 1 til 6 stig, en úrkomulítið norðaustan til og frost 1 til 6 stig.
