Philippe Coutinho, leikmaður Bayern München, spilar í treyjum sem eru ætlaðar börnum.
Brassinn er ekki hár í loftinu, rétt rúmir 1,70 metrar á hæð, og ekki eru til alvöru Bayern-treyjur í hans stærð.
Coutinho þarf því að spila í treyjum sem eru hannaðar fyrir 15-16 ára gamla krakka og eru seldar almenningi. Hann fær þó alvöru Bayern-treyjur í réttri stærð eftir áramót.
Það hefur ekki háð Coutinho mikið að klæðast barnatreyjum því hann hefur verið virkilega góður í síðustu leikjum Bayern.
Á laugardaginn skoraði Coutinho þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar í 6-1 sigri á Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni.
Coutinho kom til Bayern á láni frá Barcelona fyrir tímabilið. Hann hefur leikið 20 leiki með Bæjurum í vetur og skorað sex mörk.
Coutinho spilar í barnatreyjum

Tengdar fréttir

Coutinho með þrennu og tvær stoðsendingar
Bayern München rústaði Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni.