Gunnar Magnússon lætur af störfum sem þjálfari karlaliðs Hauka í handbolta eftir tímabilið og tekur við Aftureldingu. Gunnar hefur stýrt Haukum frá 2015.
„Þetta er alltaf spurning um rétta tímapunktinn. Í sumar ákvað ég að láta fimm ár duga og síðustu vikur hef ég orðið ennþá sannfærðari um að kveðja þetta í góðu,“ sagði Gunnar í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.
„Mörgum finnst kannski skrítið að ég geri þetta núna en það er líka sanngjarnt gagnvart stjórnarmönnum í félögunum og ekki síst gagnvart leikmönnum, að hafa þetta uppi á borðinu og það sé enginn feluleikur. Það hefur verið frábært að starfa fyrir Hauka og algjör forréttindi.“
Eins og áður segir tekur Gunnar við Aftureldingu eftir tímabilið, liðinu sem er í 2. sæti Olís-deildar karla, einu stigi á eftir toppliði Hauka.
„Það er mikill metnaður í Mosfellsbænum og þess vegna er ég að fara þangað, því mér líst vel á það umhverfi. Menn vilja ná langt og þess vegna er þetta spennandi,“ sagði Gunnar.
Hann dreymir um að kveðja Hauka með Íslandsmeistaratitli.
„Draumurinn er að klára þetta stæl. Við erum í baráttu um titlana sem í boði eru,“ sagði Gunnar.
Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.