Bátasmiðja á Djúpavogi smíðar sjókvíar og báta fyrir fiskeldi. Framkvæmdastjórinn segir marga ekki átta sig á hve sprotar geta farið víða og hve störfin eru orðin mörg sem tengjast fiskeldinu. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Við höfum áður sýnt á Stöð 2 fréttamyndir af fiskeldiskvíum í Patreksfirði. Það sem við vissum ekki þá er að þær eru íslensk smíði, raunar austfirsk, nánar tiltekið frá Rán bátasmiðju á Djúpavogi.

Framkvæmdastjórinn Vilhjálmur Benediktsson segir að þrjú íslensk fiskeldisfyrirtæki hafi til þessa keypt af þeim milli sextíu og sjötíu kvíar; Laxar á Reyðarfirði, Arnarlax og það sem áður hét Dýrfiskur, nú Arctic Fish.
Rán sérsmíðar einnig báta fyrir fiskeldið og hefur þegar selt fjóra slíka.
„Ég byrjaði með þetta sem þjónustubáta fyrir eldi, sterka báta og endingargóða,“ segir Vilhjálmur.

Og þetta skapar atvinnu fyrir drjúgan fjölda starfsmanna.
„Við höfum mest verið tólf. Við erum venjulega svona átta þegar við erum að smíða kvíar. Tíu þegar við erum að smíða bát samtímis með kvíum.“
-Telst það ekki nokkuð stórt fyrirtæki á Djúpavogi?
„Já, kannski. Jú, eiginlega.“

Þetta er dæmi um afleidd störf sem orðið hafa til með vexti fiskeldis hérlendis.
„Já, það eru þessi störf sem tengjast, - þau eru ótrúlega mörg, sem margir kannski átta sig ekki á. Sprotarnir geta farið víða,“ segir Vilhjálmur Benediktsson á Djúpavogi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: