Mikið tjón varð á húsnæði gistihússins Blábjargar á Borgarfirði eystra þegar sjór flæddi inn í íbúð. Staðarmiðilinn Austurfrétt greinir frá þessu. Einnig losnuðu heitir pottar sem voru á palli niðri við sjóinn og fóru á flakk.
„Húsið stendur auðvitað niðri í fjöru. Brimið var bara svo mikið. Það sprengdi upp hurðina á íbúðinni og sjór flæddi inn,“ segir Elísabet D. Sveinsdóttir, starfsmaður Blábjargar, í samtali við Austurfrétt.
Þar lýsir hún því hvernig þriggja sentímetra lag af sjó var komið inn í íbúðina. Starfsmenn hafi þá hafist handa við að dæla sjó út úr íbúðinni og moka út grjóti og þara sem honum fylgdi.
Sjá má myndband sem Elísabet náði af íbúðinni í dag hér fyrir neðan.
Sjór flæddi inn í íbúðina: „Hér er bara allt í klessu“
