Tvö félög sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar nýttu sér hlutabótaleið stjórnvalda samhliða því að kaupa eigin bréf, annað þeirra greiddi hluthöfum sínum jafnframt 600 milljóna króna arð í liðnum mánuði.

Forsvarsmenn félaganna tveggja, Haga og Skeljungs, segja í samskiptum við Fréttablaðið að sóst hafi verið eftir stuðningi stjórnvalda til að koma í veg fyrir uppsagnir.
Starfshlutfall um helmings starfsmanna Skeljungs hafi verið lækkað og reiknast stjórnendum félagsins til að hlutabótagreiðslur til starfsmanna í apríl hafi numið um 6 til 7 millljónum króna. Skeljungur greiddi hluthöfum sínum 600 milljóna króna arð í aprílbyrjun og keyptu eigin bréf fyrir 186 milljónir síðar í sama mánuði.
Hagar segjast við Fréttablaðið hafa nýtt hlutabótaleiðina þar sem starfsemin dróst hvað mest saman í kórónuveirufaraldrinum, eins og í veitingasölu og fataverslun. Forsvarsmenn félagsins vilja þó ekki gefa upp hversu margir starfsmenn voru settir á hlutabætur eða hvert umfang stuðningsins er í krónum. Hagar hafa keypt eigin bréf fyrir 450 milljónir króna frá 28. febrúar.
Auk fyrrnefndra félaga hafa þrjú önnur félög sem skráð eru í Kauphöllina nýtt sér hlutabótaleiðina; Icelandair, Festi og Sýn. Þau hafa þó hvorki greitt hluthöfum sínum arð né keypt eigin bréf á árinu.