Innlent

Hæg suðlæg átt á landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðamenn við Reykjavíkurtjörn.
Ferðamenn við Reykjavíkurtjörn. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir hægri, suðlægri átt á landinu í dag, þremur til tíu metrum á sekúndu, með éljagangi sunnantil en léttskýjuðu veðri um landið norðanvert.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að á morgun snúist í norðan strekking, tíu til átján metrum á sekúndu, og snjókomu norðanlands en að sama skapi muni létta til syðra. Frost verður á bilinu 0 til 10 stig þar sem kaldast í innsveitum norðaustanlands.

„Næstu daga er að mestu útlit fyrir hæga vinda á landinu, einhver él víðast hvar og kalt í veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Gengur í norðan 8-15 m/s með snjókomu á Vestfjörðum og síðar einnig á Norðurlandi. Hægari vindur og stöku él sunnantil á landinu, en snjókoma suðaustanlands eftir hádegi. Vaxandi norðanátt og léttir til um landið sunnanvert síðdegis. Frost 1 til 8 stig.

Á föstudag:
Norðan 5-13 og dálítil él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnan heiða. Áfram kalt í veðri.

Á laugardag: Norðaustan og austan 8-15 m/s. Snjókoma með köflum með suðurströndinni en annars skýjað en úrkomulítið. Frost 1 til 8 stig.

Á sunnudag:
Norðanátt með lítilsháttar éljum norðan- og austanlands, en léttkskýjað í öðrum landshlutum. Frost 2 til 9 stig.

Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir stífa norðanátt og él norðan- og austanlands, en austlæg átt og snjókoma með köflum sunnantil. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×