Innlent

Áfram fundað í kvöld í deilu Eflingar og sveitarfélaganna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Fundað verður áfram í kvöld.
Fundað verður áfram í kvöld. Vísir/Egill

Fundað hefur verið í allan dag og standa viðræður enn yfir. Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag var rætt við formann samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem sagðist ekki sjá fyrir endann á deilunni. Launakrafa Eflingar sé tíu prósentustigum hærri en í samningum sem þegar hafa verið gerðir við 7.000 starfsmenn í öðrum stéttarfélögum sem sinna sömu störfum.

Inga Rún Ólafsdóttir er formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélagaARNAR HALLDÓRSSON

„Við erum bara með þessa kröfu sem allir hljóta að vera farnir að þekkja mjög vel, það er að fá sömu leiðréttingu og við náðum í samningum við Reykjavíkurborg og ríkið,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.

Verkfall á þriðja hundrað félagsmanna Eflingar hjá Kópavogsbæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesbæ og sveitarfélaginu Ölfusi hófst á þriðjudag. Verkfallið hefur meðal annars haft mikil áhrif á starfsemi grunn- og leikskóla í bæjarfélögunum. Lítill árangur hefur náðst á samningafundum í deilunni hingað til en samningar hafa verið lausir í rúmt ár.

Formaður Eflingar og formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga vildu hvorugar tjá sig um stöðu mála skömmu fyrir kvöldfréttir. Matarhlé er nú á viðræðum en fundað verður áfram í kvöld.


Tengdar fréttir

Sér ekki fyrir endann á deilu sveitarfélaganna og Eflingar

Formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga segist ekki sjá fyrir endann á deilu sambandsins og Eflingar. Hlé var gert á viðræðum á sjötta tímanum í gær og hófust viðræður á ný klukkan 10 í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×