Í tillögum sem lagðar voru fram af Icelandair í kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands í gær er farið fram á 18 til 35 prósenta launaskerðingu flugfreyja og flugþjóna hjá félaginu. Þetta kemur fram í athugasemdum FFÍ við tillögurnar sem fréttastofa hefur undir höndum.
Samkvæmt tillögunum getur FFÍ ekki samið um launahækkun fyrr en í fyrsta lagi í október árið 2023. Kjarasamningurinn sem lagður er til myndi gilda frá 15. maí næstkomandi, til loka ársins 2025. Þá er í tillögum Icelandair ákvæði sem gefur félaginu heimild til þess að opna samninga og hefja viðræður að nýju, skili félagið ekki hagnaði árið 2023.
Í athugasemdum FFÍ við tillögur Icelandair segir: „Ef gert er ráð fyrir hóflegri verðbólgu (2,5% á ári) á tímabilinu 1.1.2019 -31.12.2023 þýðir þetta c.a. 13% kaupmáttarrýrnun.“
Þá er gerð talsverð breyting á ákvæðum um vakta- og hvíldartíma flugfreyja og flugþjóna. Eins og er eiga félagsmenn FFÍ rétt á einu og hálfu helgarfríi á mánuði, en samkvæmt nýjust tillögum Icelandair yrði aðeins um að ræða eitt helgarfrí á mánuði.
Þá eru tillögur Icelandair settar í samhengi við Lífskjarasamninginn í athugasemdum Flugfreyjufélagsins.
„Lífskjarasamningurinn kveður á um 90.000 kr. launahækkun ásamt minni vinnuskyldu á tímabilinu 2019-2022. Ekki hefur verið samið á almennum markaði vegna 2023-2025.
Lífskjarasamningurinn kveður á um lágmarkstekjutryggingu 368.000 kr. árið 2022. Föst laun flugfreyju á D-línu á fyrsta ári verða 289.999kr. árið 2022,“ segir í athugasemdum FFÍ.