881 lét lífið af völdum Covid-19 í Brasilíu í gær og er það mesti fjöldi á einum degi í landinu frá upphafi faraldursins.
Brasilía er nú í sjötta sæti yfir þau lönd þar sem flestir hafa látið lífið af völdum veirunnar en óttast er að tala látinna sé þó mun hærri þar og hafa yfirvöld verið harðlega gagnrýnd fyrir lausatök sín í málinu.
Forsetinn Jair Bolsonaro hefur til að mynda ítrekað gert lítið úr vandamálinu og gagnrýnt fjarlægðartakmörk sem ríkisstjórar landsins hafa sett.
Í gær gaf hann síðan út tilskipun þar sem segir að snyrtistofur, rakarastofur og líkamsræktarstöðvar féllu undir nauðsynlega starfsemi og ættu því að vera opnar.
Margir ríkisstjórar landsins ætla að hundsa tilskipunina, að því er fram kemur í umfjöllun í Guardian.