Erlent

Ný smit í Kína ekki verið fleiri síðan í byrjun mars

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Við Yangtze-á í Wuhan. Borgin var nýlega opnuð eftir að hafa verið lokuð í ellefu vikur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Við Yangtze-á í Wuhan. Borgin var nýlega opnuð eftir að hafa verið lokuð í ellefu vikur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Vísir/EPA

Á síðastliðnum sólarhring hafa 108 ný tilfelli af kórónuveirunni sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19 greinst í Kína, þar sem veiran er talin hafa átt upptök sín. Það eru fleiri smit en hafa greinst á einum degi í landinu síðan 5. mars.

Langstærstur hluti smitanna sem um ræðir, eða 98 þeirra, eru „innflutt.“ Með öðrum orðum er þar um að ræða einstaklinga sem taldir eru hafa smitast erlendis og borið veiruna með sér til Kína. Þessar tölur hafa vakið ótta um að ný bylgja faraldursins gæti skollið á Kína, en stutt er síðan borgin Wuhan, þar sem veiran kom fyrst upp, var opnuð á ný eftir að hafa verið lokuð í 11 vikur.

Í viðbót við þau 108 tilfelli sem greindust, hefur 61 greinst án einkenna síðasta sólarhringinn, en Kínverjar telja slík tilfelli ekki með inn í heildartölu þeirra sem hafa smitast.

Heildartala þeirra sem hafa smitast og veikst í Kína er 82.160. Þar af hafa 3.341 látist. Virk smit í landinu eru nú 1.156.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×