Fótbolti

Karius er enn í sambandi við Klopp

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp og Karius ræða saman.
Klopp og Karius ræða saman. vísir/getty

Loris Karius, markvörður Liverpool sem hefur verið á láni hjá tyrkneska félaginu Besiktas undanfarin tvö tímabil, segist ekki vita hvað framtíðin beri í skauta sér en segist þó enn ræða við Jurgen Klopp, stjóra Liverpool.

Markvörðurinn hefur ekki spilað leik fyrir Liverpool eftir að hafa kastað Meistaradeildinni á glæ fyrir Liverpool í úrslitaleiknum gegn Real Madrid árið 2018 þar sem sá þýski gerði tvö hörmuleg mistök.

Eftir það var hann sendur að láni til Besiktas þar sem hann hefur verið síðustu tvær leiktíðir en tyrkneski boltinn er eins og flestar aðrar deildir í Evrópu á ís vegna kórónuveirunnar. Hann segist enn halda sambandi við sitt fólk hjá Liverpool en ekki er vitað hvað verður um Karius er hann snýr til baka úr láninu í sumar.

„Ég blanda mér ekki í sögusagnir. Staðreyndirnar eru þær að ég er með samning við Liverpool til 2022. Nú er ég bara einbeita mér að Besiktas og það er of snemmt að segja til um hvað gerist í sumar, sérstaklega þegar við vitum ekkert hvað gerist útaf kórónuveirunni,“ sagði sá þýski við Bild í heimalandinu.

„Ég tala mest við markmannsþjálfarann John Achterberg og tala við hann næstum því í hverri viku. Hann er sá fyrsti sem ég tala við en ég tala einnig við Jurgen Klopp. Ég er í sambandi við alla og hef aldrei misst það samband.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×