Yfir 180 kirkjugestum var skipað að fara í sóttkví eftir að smitaður einstaklingur reyndist hafa verið í sömu messu þeir. Um var að ræða mæðradagsmessu í Butte-sýslu í norðurhluta Kaliforníu en einstaklingurinn greindist með kórónuveiruna stuttu eftir messuna.
Presturinn Michael Jacobsen staðfesti í samtali við Washington Post að messan hafi verið í sínum söfnuði, Palermo Bible Family Church. Messan fór fram þvert á tilmæli yfirvalda í ríkinu en stórar samkomur eru bannaðar til þess að sporna gegn kórónuveirufaraldrinum.
Jacobsen sagðist ekki hafa átt í samskiptum við heilbrigðisyfirvöld vegna athafnarinnar en hann hafði nú þegar þurft að aflýsa páskahelgistund vegna faraldursins. Hann hafði trúað því að það væri óhætt að halda messu nú í ljósi þess hversu fá smit hefðu komið upp í sýslunni.
Um 200 þúsund manns búa í Butte-sýslu og eru um 22 virk smit á svæðinu.
„Ég þurfti að aflýsa páskafögnuðinum og eru það fyrstu páskarnir síðan ég fékk Jesú inn í mitt líf þar sem ég gat ekki tekið þátt í helgistund. Það var mjög erfitt,“ sagði Jacobsen og bætti við að kirkjan væri nauðsynlegur hluti af lífi sínu.
Heilbrigðisyfirvöld í ríkinu hafa varað við því að brjóti fólk gegn fyrirmælum með þessum hætti gæti það leitt til þess að grípa þurfi til harðari aðgerða.