Engir áhorfendur voru viðstaddir toppslag Juventus og Inter í ítölsku úrvalsdeildinni í gær vegna kórónuveirunnar. Juventus vann 2-0 sigur og komst þar með á topp deildarinnar. Guðjón Guðmundsson fór yfir leikinn.
Allir leikir helgarinnar í ítölsku deildinni fóru fram fyrir luktum dyrum vegna kórónuveirunnar sem hefur leikið Ítali grátt. Það var því ansi tómlegt um að litast á Allianz leikvanginum í Tórínó í gær.
Eftir jafnan fyrri hálfleik tók Juventus völdin í þeim seinni. Á 54. mínútu kom velski miðjumaðurinn Aaron Ramsey Juventus yfir með skoti af stuttu færi eftir barning í vítateig Inter.
Paulo Dybala kom inn á sem varamaður á 59. mínútu og átta mínútum síðar skoraði hann annað mark Juventus. Markið var í glæsilegri kantinum. Argentínumaðurinn lék á Ashley Young og skoraði með utanfótarskoti framhjá Samir Handanovic í marki Inter.
Fleiri urðu mörkin ekki og Juventus fagnaði öðrum sigri sínum á Inter á tímabilinu.
Juventus er með eins stigs forskot á Lazio á toppi deildarinnar. Eftir rýra uppskeru í síðustu leikjum er Inter í 3. sæti deildarinnar með 54 stig, níu stigum á eftir Juventus.
Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.