Alfreð Finnbogason og félagar hans í þýska úrvalsdeildarliðinu Augsburg hafa fengið nýjan knattspyrnustjóra.
Sá heitir Heiko Herrlich. Hann tekur við Augsburg af Martin Schmidt sem var látinn taka pokann sinn á sunnudaginn.
Hello, Heiko!
— FC Augsburg (@FCA_World) March 10, 2020
Heiko Herrlich has been appointed new manager of FCA pic.twitter.com/aJM0O5dxWn
Herrlich var síðast við stjórnvölinn hjá Bayer Leverkusen. Hann hefur einnig þjálfað Jahn Regensburg, Unterhaching, Bochum og yngri landslið Þýskalands.
Herrlich lék lengst af ferilsins með Borussia Dortmund. Hann varð tvisvar sinnum þýskur meistari með liðinu og einu sinni Evrópumeistari. Herrlich skoraði eitt mark í fimm landsleikjum fyrir Þýskaland.
Augsburg, sem hefur tapað þremur leikjum í röð, er í 14. sæti þýsku deildarinnar með 27 stig, fimm stigum frá fallsæti.
Herrlich stýrir Augsburg í fyrsta sinn þegar liðið tekur á móti Wolfsburg á sunnudaginn.