Ylströndin í Nauthólsvík er enn lokuð þrátt fyrir að sundlaugar borgarinnar hafi opnað í gær.
Þau svör hafa borist frá yfirvöldum að um sé að ræða tilmæli frá sóttvarnalækni þar sem nándin sé of mikil í sturtuklefum og pottum svæðisins.
Stefnt er að því að opna sturtuklefana á mánudaginn næsta en vegna þess að enginn klór er í pottunum verða þeir enn lokaðir.
Herdís Anna Þorvaldsdóttir formaður Sjósunds- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur, segir rökin fyrir áframhaldandi lokun svæðisins ekki halda vatni.
„Það er ekki það að við getum ekki beðið í nokkrar vikur eftir því að pottarnir opni ef það varðar öryggi og heilsu fólks. Við teljum að þessi rök haldi ekki vatni, það er búið að opna Guðlaugu á Akranesi,“ sagði Herdís.
Herdís segir þá að rekstrarfyrirkomulag Ylstrandarinnar sé úr sér gengið og kominn sé tími á breytingar.
„Þessi rök miðast helst að rekstrarfyrirkomulagi þessarar aðstöðu sem við höfum gagnrýnt undanfarin ár. Hér hefur aðsókn aukist um 20% milli ára síðustu 5 ár. Þetta er löngu búið að springa utan af sér. Við viljum benda á að rekstrarfyrirkomulag sé sérstakt og það mætti endurskoða þetta í samvinnu við notendur,“ sagði Herdís.
Spurð um viðbrögð við því að fyrirhugað sé að opna sturtuklefana í næstu viku sagði Herdís að þó að klefarnir væru litlir væri nándin ekki meiri en í öðrum klefum.
„Þeir ætla að opna sturtuklefana, þeir fara einhvern veginn gegn sjálfum sér. Það er fínt,“ sagði Herdís í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.