Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson spilar hugsanlega með FH í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í sumar. Hann lék með liðinu í æfingaleik gegn Fram í dag.
Emil kom inn á sem varamaður í leiknum og kom FH í 2-0 með skoti utan teigs, en það urðu lokatölur. Björn Daníel Sverrisson hafði komið FH-ingum yfir.
Emil Hallfreðs að smyrja boltanum í fjærhornið með vinstri vel fyrir utan teig og koma FH í 2-0 á móti Fram eftir 70 mín. Algjör svindlkall ef þessi gæi mætir í deildina í sumar. Veisla að boltinn sé byrjaður að rúlla. pic.twitter.com/mG4fPQlN2z
— Haukur V. Magnússon (@haukur80) May 30, 2020
Emil hefur æft með FH undanfarnar vikur en hann er samningsbundinn ítalska félaginu Padova til 30. júní. Hlé hefur verið á keppni í ítalska fótboltanum síðan í mars vegna kórónuveirufaraldursins, en ákveðið hefur verið að hefja keppni að nýju í A- og B-deild í júní. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig málum verður háttað í C-deildinni.
Aðeins tvær vikur eru í að Íslandsmótið hefjist og eru íslensku liðin iðin við að spila æfingaleiki þessa dagan. Nú er einnig nýlokið leik Fjölnis og Grindavíkur þar sem 3-3 jafntefli varð niðurstaðan.
Leik lauk í Grindavík með 3-3 jafntefli. Jón Gísli Ström, Sigurpáll Melberg Pálsson og Arnór Breki Ásþórsson skoruðu fyrir #FélagiðOkkar.
— Fjölnir FC (@Fjolnir_FC) May 30, 2020