Eftir að George Floyd var myrtur af lögreglunni í Minneapolis hafa óeirðir og mótmæli brotist út um gervöll Bandaríkin. NBA-félögin og erkifjendurnir í Los Angeles Clippers og Los Angeles Lakers hafa gefið út tilkynningar þar sem þau fordæma kynþáttahatur og þá sem gerast sekir um slíkt.
Tilkynningarnar má til að mynda finna á Twitter-síðum félaganna.
— Los Angeles Lakers (@Lakers) May 31, 2020
„Við fordæmum allar birtingarmyndir kynþáttaníðs, ofbeldis og fordóma. Það eiga allir skilið virðingu og enginn á að þurfa að lifa í ótta allt sitt líf. Við vitum af sársaukanum sem er til staðar í samfélagi svartra. Við munum ekki sitja þegjandi og hljóðalaust,“ segir í yfirlýsingu Lakers.
A statement on behalf of @DocRivers and the LA Clippers. pic.twitter.com/OwbLEHFrCL
— LA Clippers (@LAClippers) May 31, 2020
„Faðir minn var lögreglumaður í Chicago í 30 ár og ef hann væri enn meðal vor væri hann særður og reiður yfir þeim atburðum sem hafa átt sér stað. Að vera svartur í Bandaríkjunum er erfitt. Ég get ekki talið hversu oft fólk hefur gagnrýnt húðlit minn, ég hef verið stöðvaður af lögreglu fyrir það eitt hvernig húðin á mér er á litinn og einnig var húsið mitt brennt til grunna.“
„Viðbrögðin sem við sjáum nú í Bandaríkjunum – vegna morðsins á George Floyd – hafa verið að gerjast í marga áratugi. Of oft hefur fólk dæmt viðbrögð fólks frekar en atburðina sem leiddu til þeirra. Við höfum leyft of mörgum skelfilegum atvikum að eiga sér stað án þess að bregðast við. Þetta er kemur ekki aðeins samfélagi svartra í Bandaríkjunum við heldur samfélagi manna í heild sinni.“
„Samfélag okkar verður að læra að eiga óþægilegar samræður og bregðast rétt við. Þögnin er ekki lengur boðleg. Nú er tími til að stíga upp og láta í sér heyra. Í nóvember er tími til að kjósa. Orð bera mikla ábyrgð en kosningaseðlar ykkar bera enn meiri ábyrgð. Það er kominn tími til að horfast í augu við vandann og vera hluti af lausninni,“ segir í tilkynninu frá Los Angeles Clippers sem er undirrituð af Doc Rivers, þjálfara liðsins.
Það er augljóst að hann vill hvetja Bandaríkjamenn til þess að mæta og kjósa í nóvember þegar forsetakosningar eiga sér stað.