Pepsi Max deildarlið Vals og Breiðabliks gerðu 3-3 jafntefli á Kópavogsvelli í gærkvöld. Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan þökk sé BlikarTv sem tók leikinn upp.
Leikurinn var einkar fjörugur og ljóst að sóknarleikur liðanna verður ekki vandamál í sumar. Það má þó eflaust setja stór spurningamerki við varnarleik beggja liða.
Dönsku framherjarnir Thomas Mikkelsen og Patrick Pedersen gerðu tvö mörk hvor en þeir verða án efa meðal markahæstu manna í deildinni í sumar.
Leikurinn var mjög sveiflukenndur en gestirnir komust yfir eftir aðeins tíu mínútur. Heimamenn svöruðu með tveimur mörkum á tíu mínútna kafla áður en Patrick Pedersen jafnaði metin fyrir hálfleik og kom Val yfir í þeim síðari. Það var svo varamaðurinn Kwame Quee sem jafnaði metin í uppbótartíma fyrir Blika.