Íslenski knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn fyrir Darmstadt þegar liðið heimsótti Jahn Regensburg í þýsku B-deildinni í fótbolta í dag.
Heimamenn komust yfir snemma leiks með marki Marcel Correia og leiddu með einu marki gegn engu í leikhléi.
Max Besuschkow kom heimamönnum í 2-0 snemma í síðari hálfleik en á 66.mínútu fengu Guðlaugur Victor og félagar kjörið tækifæri til að koma sér aftur inn í leikinn. Tobias Kempe nýtti hins vegar ekki vítaspyrnu en skömmu áður hafði liðsmaður Regensburg fengið að líta rauða spjaldið.
Einum manni færri tókst heimamönnum að bæta við einu marki og 3-0 sigur Jahn Regensburg því staðreynd.
Darmstadt áfram í 5.sæti deildarinnar, sex stigum frá 3.sæti sem skilar umspilsleik um sæti í þýsku úrvalsdeildinni.