Óskar Sveinn Friðriksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri framleiðslu- og þjónustufyrirtækisins KAPP ehf.
Óskar Sveinn starfaði áður sem forstöðumaður alþjóðasviðs Eimskips þar sem hann hefur stýrt kæli og frystiflutningsmiðlun félagsins síðastliðin tíu ár.
„Hann var á þeim tíma með aðsetur í Hollandi. Óskar hefur lengst af síns starfsferils unnið fyrir Eimskip og hefur starfað fyrir félagið í Hollandi, Bandaríkjunum og Kanada. Hann starfaði einnig hjá Sölku fiskimiðlun í 5 ár. Óskar er menntaður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum í Tromso í Noregi.
Freyr Friðriksson, eigandi KAPP, sem verið hefur framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá stofnun þess, verður nú stjórnarformaður fyrirtækisins. Freyr mun samhliða því sinna öðrum verkefnum fyrir fyrirtækið,“ segir í tilkynningunni.
KAPP selur og þjónustar kæli, frysti- og vinnslubúnað ásamt því að framleiða og smíða ryðfríar vörur fyrir matvælaiðnaðinn. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 43 talsins.