Viðskipti innlent

Hefja netverslun og heimsendingu á bjór

Andri Eysteinsson skrifar
BeFunky-collage1
Aðsend/Bjórland

„Það hefur verið hægt að versla samskonar vörur á netinu og fá heimsent erlendis frá og við teljum að sama gildi um okkar vöru,“ sagði Þórgnýr Thoroddsen, rekstraraðili Bjórlands sem hóf í dag netverslun og heimsendingu á bjór frá íslenskum brugghúsum.

Þórgnýr segir í samtali við Vísi að hugmyndin hafi sprottið upp fyrr á árinu en heimasíðunni bjorland.is var komið í loftið 1. mars rétt áður en að kórónuveirufaraldurinn hófst af alvöru hér á landi með tilheyrandi samkomubanni.

Hann segir Bjórland kjörið til þess að taka slaginn og láta reyna á það að bjóða upp á heimsendingu og netverslun af bjór sem lengi hefur verið andstætt íslenskum lögum. Stærri brugghús hér á landi hafi of miklu að tapa til þess að fara í þessar aðgerðir.

Þórgnýr segir starfsemi fara vel af stað og fjöldi fólks sé áhugasamt um að nýta sér þjónustu Bjórlands.

Fólkið að baki Bjórlandi kemur þó ekki sjálft að heimsendingunni en Þórgnýr segir að fagfólk hafi verið fengið til verksins bæði þegar kemur að henni og lagervörslu vörunnar sem keypt er af íslenskum brugghúsum.

Þórgnýr á von á því að einhver spurningarmerki verði sett við starfsemi Bjórlands af hinu opinbera og segist spenntur að vita hversu lengi Bjórland fái að lifa óáreitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×