Anníe Mist Þórisdóttir er goðsögn innan CrossFit íþróttarinnar og tvöfaldur heimsmeistari. Eftir ellefu ár í íþróttinni þá ætti hún að þekkja hana og fólkið innan hennar betur en flestir.
Anníe Mist horfir til framtíðar í nýjum pistil og skírði hann „Sameinuð erum við sterkari“ en CrossFit samfélagið hefur gengið í gegnum mikið samfélagsmiðlaóveður síðustu daga.
„Við erum að upplifa róstusömustu tímana á síðari árum. Heimsfaraldur, mótmæli gegn kynþáttafordómum út um allan heim og svo á endanum hrun hjá íþróttinni okkar þökk sé ónærgætni og fáfræði Greg Glassman,“ skrifaði Anníe Mist Þórisdóttir eins og sjá má hér fyrir neðan.
„Þetta er mjög tilfinningaþrunginn tími fyrir okkur öll og á slíkum stundum er þolinmæði ekki okkar fyrstu viðbrögð enda erum við að upplifa ranglæti. Verkin tala en úthugsaðar og skynsamar ákvarðanir munu breyta heiminum,“ skrifaði Anníe Mist.
„Við þurfum að sameinast á ný og sameina samfélagið sem við byggðum. Fólkið heima, eigendur stöðvanna og íþróttafólkið. Við erum CrossFit ekki Greg. CrossFit er það sem við gerum á hverjum degi og breytum lífi fólks á gólfinu út um allan heim,“ skrifaði Anníe Mist.
„Ég hef eytt ellefu árum í þessu sporti og hef verið í kringum ótrúlegt fólk. Ég hef mikla ástríðu fyrir því að vekja athygli á því góða sem hefur komið frá þessu samfélagi og hvernig það hefur hjálpað mér að verða sú sem ég er í dag. Við þurfum að halda áfram að hjálpa fólki í neyð,“ skrifaði Anníe Mist.
„Sameinuð munum við rísa sterkari,“ skrifaði Anníe Mist að lokum.