Innlent

Allt að 16 stig í dag og hlýrra á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Vík í Mýrdal. Hlýjast verður á Suðausturlandi í dag.
Frá Vík í Mýrdal. Hlýjast verður á Suðausturlandi í dag. Vísir/vilhelm

Það verður víða með hlýrra móti á landinu í dag en búast má við hita á bilinu 8 til 16 stig, hlýjast suðaustantil, og 10 til 19 stig á þjóðhátíðardaginn á morgun, þá hlýjast á Norðausturlandi.

Þá verður suðvestlæg eða breytileg átt á bilinu 3-10 m/s í dag. Víða dálitlar skúrir en líklega þurrt á Suðausturlandi og Austfjörðum. Í kvöld lægir og styttir upp og léttir til um landið austanvert.

Suðlæg átt á morgun, víða 3-8 m/s. Um landið norðanvert verður yfirleitt bjart veður en þó má búast við þokulofti við ströndina, einkum úti fyrir Austurlandi. Þurrt og skýjað með köflum á Suður- og Suðvesturlandi. Bætir heldur í vind við ströndina um kvöldið.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag (lýðveldisdagurinn):

Suðlæg átt 3-10 m/s. Skýjað með köflum sunnan- og vestanlands og hiti 10 til 14 stig, en léttskýjað á Norðausturlandi með hita 13 til 19 stig.

Á fimmtudag:

Suðaustan 8-13 við suðvesturströndina, annars hægari. Skýjað en úrkomulítið á sunnanverðu landinu, en bjartviðri norðanlands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á föstudag:

Hægt vaxandi austlæg átt. Bjart með köflum norðaustantil, en fer að rigna sunnanlands síðdegis. Hiti breytist lítið.

Á laugardag (sumarsólstöður) og sunnudag:

Austlæg átt og rigning með köflum. Milt í veðri.

Á mánudag:

Útlit fyrir sunnanátt með vætu í flestum landshlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×