Þó svo að Cristiano Ronaldo hafi tekið fyrir það á sínum tíma að enda ferilinn í Bandaríkjunum þá virðist sem portúgalska ofurstjarnan hafi mögulega skipt um skoðun.
Ítalska stórliðið Juventus tapaði í vítaspyrnukeppni fyrir Napoli í gær er liðin mættust í úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar. Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og var farið beint í vítaspyrnukeppni þar sem Napoli hafði betur gegn áttföldum Ítalíumeisturum Juventus.
Er þetta annar úrslitaleikurinn sem Juventus tapar í röð en liðið tapaði fyrir Lazio í ítalska Ofurbikarnum undir lok síðasta árs.
Það er spurning hversu marga úrslitaleiki til viðbótar Ronaldo leikur með Juventus en Luis Nani, fyrrum samherji hins 35 ára gamla Ronaldo hjá Manchester United og portúgalska landsliðinu, sagði á dögunum að Ronaldo hefði sagt við sig að hann hefði áhuga á að enda ferilinn í MLS-deildinni.
Cristiano Ronaldo told Nani he will probably end up in MLS
— ESPN FC (@ESPNFC) June 17, 2020
(via @TaylorTwellman) pic.twitter.com/W7Cg0nr3DD
Ronaldo tók fyrir það á sínum tíma að enda ferilinn í Bandaríkjunum en mögulega hefur hann skipt um skoðun í dag. Það virðist sem flestir knattspyrnumenn Evrópu séu tilbúnir að fara í MLS-deildina og spila fyrir lið David Beckham, Inter Miami.
Hver veit nema Ronaldo gangi svo bara til liðs við Orlando City og endi ferilinn með áðurnefndum Nani sem gekk í raðir félagsins á síðasta ári. Hefur Nani skorað tólf mörk í 30 leikjum fyrir Orlando. Þar með yrði Ronaldp önnur stórstjarnan sem hefði spilað fyrir bæði spænska stórveldið Real Madrid og Orlando City.
Hin stórstjarnan er hinn brasilíski Kaka en hann gekk í raðir Real Madrid sumarið 2009 líkt og Ronaldo. Fimm árum síðar gekk hann í raðir Orlando og lék með þeim allt til ársins 2017 þegar skórnir fóru á hilluna.