Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Amy Klobuchar hefur útilokað að hún verði sjálf varaforsetaefni Demókratans Joe Biden í komandi forsetakosningunum í nóvember.
Klobuchar segir að Biden eigi þess í stað að velja „hörundsdökka konu“ sem sitt varaforsetaefni.
Nafn Klobuchar, sem er öldungadeildarþingmaður Minnesota og bauð sig sjálf fram til að verða forsetaefni Demókrata, hefur ítrekað verið nefnt sem líklegt varaforsetaefni Biden.
Fréttaskýrendur segja að dregið hafi úr líkum á að Klobuchar yrði fyrir valinu eftir dauða George Floyd í Minneapolis í Minnesota í maí.
Mikil mótmæli gegn kerfisbundnum rasisma og lögregluofbeldi hafa blossað upp víðs vegar um Bandaríkin í kjölfar dauða Floyd, en hann dó þar sem lögregla var að handtaka hann.
Biden hefur áður gefið sterklega í skyn að hann muni velja hörundsdökka konu sem varaforsetaefni sitt.
BREAKING: Sen. Klobuchar announces she is withdrawing from consideration to be Joe Biden's vice presidential choice: "I think this is a moment to put a woman of color on that ticket." pic.twitter.com/xk4zZIP7Yd
— MSNBC (@MSNBC) June 19, 2020