Skjálfti af stærðinni 5,6 reið yfir norðaustur af Siglufirði klukkan 15:05 í dag. Mikil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu síðasta sólarhringinn og hafa um 200 skjálftar riðið yfir á svæðinu frá miðnætti.
Á annan tug eftirskjálfta hafa fylgt þeim stærsta og var stærð þeirra á bilinu 1,7 upp í 3,7. Vakthafandi jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að tilkynningar hafi borist allt frá Húsavík vestur að Sauðárkróki.
Íbúi á Sauðárkróki segir í samtali við fréttastofu Vísis að allt hafi skolfið þegar skjálfti reið yfir rétt eftir klukkan 15 í dag. Íbúar á Svalbarðseyri hafa einnig tilkynnt um að hafa fundið fyrir skjálftanum og segir einn þeirra í samtali við fréttastofu að munir hafi hrunið í gólfið og brotnað þegar skjálftinn reið yfir.
Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið á Tjörnesbrotabeltinu, um 20 km norðaustur af Siglufirði, undanfarinn sólarhring og hafa meira en 450 jarðskjálftar mælst þar frá því á hádegi í gær.
Fréttin var uppfærð klukkan 15:40.